
Byggingaleyfi samþykkt fyrir nýjan Landspítala við Hringbraut
Byggingarfulltrúinn í Reykjavík hefur samþykkt byggingaleyfi til að byggja nýjan meðferðarkjarna við Hringbraut í samræmi við umsókn NLSH ohf.
Corpus3 hönnunarhópurinn sem samanstendur af níu innlendum og erlendum hönnunarfyrirtækjum eru aðalhönnuðir hússins.
Meðferðarkjarninn er stærsta byggingin í uppbyggingu Hringbrautarverkefnisins og gegnir lykilhlutverki í starfseminni.
Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri NLSH ohf: segir að þetta sé stór áfangi í Hringbrautarverkefninu.
"Jarðvinna verksins er hafin og byggingaryfirvöld í Reykjavík hafa unnið vel að yfirferð á hönnunargögnum Corpus3 hópsins.
Fullnaðarhönnun húsanna í Landspítalaþorpinu er notendastudd og byggir á margra ára aðkomu starfsmanna Landspítala. Corpus3 nýtir sér ekki einungis innlenda þekkingu og sú bygging sem rís bráðlega við Hringbraut mun ekki verða neinn eftirbátur sambærilegra sjúkrahúsa í Evrópu.
Það ber að þakka þeim fjölda fólks sem komið hefur að undirbúningi Hringbrautarverkefnisins“.