
Engin röskun á framkvæmdum við nýjan Landspítala vegna Covid-19
Engin röskun hefur orðið á starfsemi NLSH ohf vegna Covid19 faraldursins. Starfsmenn vinna að mestu leyti frá heimastöð og jarðvegsframkvæmdir við Hringbraut eru á lokastigi.
Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri Hringbrautarverkefnisins, segir að næstu skref séu að klára jarðvegsframkvæmdir og að bjóða út uppsteypuþáttinn í byggingu nýs Landspítala.
Forvalsþættinum sé lokið og fljótlega munu þau fimm fyrirtæki, sem talin eru hæf til að bjóða í uppsteypu nýs Landspítala, fá útboðsgögn til að geta boðið í verkið.
Stefnt er að því að uppsteypa geti hafist í júní.
Einnig er unnið samhliða að öðrum útboðum bæði tengd meðferðarkjarnanum og öðrum verkefnum.
Verktakafyrirtækin sem metin voru hæf til að bjóða í uppsteypuverkið eru:
Eykt, Íslenskir aðalverktakar, Ístak, Rizzani De Eccher og ÞG verktakar.
Nýr meðferðarkjarni verður um 70 þúsund fermetrar ásamt bílakjallara.