
Fimm fyrirtæki vilja byggja nýjan Landspítala við Hringbraut
Opnaðar hafa verið umsóknir hjá Ríkiskaupum í forvali nr. 21068 vegna uppsteypu á nýjum meðferðarkjarna við Hringbraut sem er stærsta byggingin í Hringbrautarverkefninu, eða um 70.000m².
Þátttökubeiðnir bárust frá eftirtöldum aðilum:
Eykt ehf
Íslenskir aðalverktakar hf
Ístak hf
Rizzani De Eccher Island ehf
ÞG verktakar ehf
Engin takmörkun var á fjölda bjóðenda.
Eftir yfirferð forvalsgagna verða niðurstöður kynntar þann 6. janúar næstkomandi.
Meðferðarkjarninn er stærsta byggingin á skipulagsreit Hringbrautarverkefnisins og í henni verður þungamiðjan í starfsemi Landspítalans. Gerðar hafa verið sambærilegar kröfur um aðbúnað í meðferðarkjarna og í nýjum háskólasjúkrahúsum í nágrannalöndum okkar. Meðferðarkjarninn er hugsaður út frá starfsemi bráða- og háskólasjúkrahúss, með áherslu á einfalt og skýrt fyrirkomulag ásamt greiðum leiðum milli starfseininga.