
Frumvarp um breytta fjármögnun lagt fram
Fjármálaráðherra hefur lagt fram frumvarp á Alþingi þar sem gert er ráð fyrir því að ríkið fjármagni byggingu nýs Landspítala. Horfið verði frá svokallaðri leiguleið þar sem gert var ráð fyrir að einkaaðilar reistu byggingar og ríkið tæki þær á leigu. Þó er heimilt að minni byggingar verði boðnar út og reistar samkvæmt leiguleiðinni.
Þá er lagt til að Nýr Landspítali ohf. starfi áfram að undirbúningi verkefnisins en að hlutverk þess verði þrengra en samkvæmt núgildandi lögum. Félagið muni undirbúa útboð fyrir byggingu spítalans en hafi ekki lengur heimild til að semja um að ríkið taki byggingarnar á leigu að loknu útboði.
Ráðherra verður hins vegar heimilt að ákveða að tilteknir skýrt afmarkaðir, minni byggingarhlutar, eða byggingar, séu boðnir út í formi langtímaleigu telji hann það þjóna heildarhagsmunum verkefnisins.
Lög um opinberar framkvæmdir gilda um verkefnið
Verði frumvarpið að lögum munu lög um skipan opinberra framkvæmda gilda um verkefnið. Alþingi mun því ákveða árlegar fjárveitingar til verkefnisins, eins og almennt gildir um opinberar framkvæmdir á vegum ríkisins.
Gera má ráð fyrir að um það bil 25% af fullnaðarhönnun verksins sé nú lokið. Áætlaður kostnaður fyrir fyrsta áfanga nýrra bygginga er 49,5 milljarðar. Gert er ráð fyrir að endurbætur á gömlu húsnæði muni kosta um 13 milljarða og kostnaður við tækjakaup nemi 12 milljörðum.