folk ad labba i att ad spitalanum

Gagn Háskóla Íslands af nýju húsi

Margoft hefur verið bent á ávinning nýbyggingar fyrir starfsemi Landspítala. En hver er ávinningur háskólans? Mikilvægt er að koma kennslu fyrir á einum stað. Með því styrkjast möguleikar á samkennslu og samþáttun kennslu í grunnnámi áður en nemendur fara út á deildir spítalans þar sem þeir læra sín fræði m.a. af sjúklingum sem þar eru. Nauðsyn er á að nemendur átti sig strax á því að fleiri stéttir en þeirra eigin sinna sjúklingum. Fagstéttir þurfa að læra snemma að starfa saman.

Mikil styrkur, faglegur og fjárhagslegur, felst í því að koma starfsemi og stoðþjónustu allra deilda og námsbrauta heilbrigðisvísindasviðs á einn stað. Samnýting rannsóknastofa, tækjabúnaðar og starfsfólks býður ekki aðeins upp á fjárhagslega hagræðingu heldur einnig mikil fagleg tækifæri.

Nýverið var Lífvísindasetri Háskóla Íslands komið á laggirnar. Það er samstarfsvettvangur allra þeirra sem sinna grunnrannsóknum í líf- og heilbrigðisvísindum. Í nýju húsi kæmist öll starfsemi því tengd undir eitt þak. Nálægð bóklegs náms og grunnrannsókna við rannsóknir og nám á sjúkradeildum efla starfsþjálfun nemanna og gera þá enn hæfari til að sinna og mæta þeim miklu breytingum sem verða munu í fagi þeirra á næstu árum og áratugum.

Að lokum er brýnt að benda á að sá hópur landsmanna sem helst hlýtur ávinning af því að samræma starfsemi spítalans og háskólans eru sjúklingar þessa lands. Á þeim er því miður enginn hörgull og verður ekki. Meginmarkmið nýbyggingarinnar er að efla þekkingu, menntun og síðast en ekki síst þjónustu við sjúklinga.