folk ad labba i att ad spitalanum

Landspítali - oforð eða efndir?

Sem ég sat við sjónvarpsskjáinn í fréttatíma í gær (28. nóv.) og heyrði boðskap fjármálaráðherra um frestun og endurskoðun byggingar Landspítalans varð ég gripinn því ástandi, sem sálfræðingar kalla „dejavu“, – þetta hefi eg lifað og séð áður! – Þessi upplifun mín var augljós og ekki mjög langsótt og nátengd málinu og gerðist eitthvert árið um 1985-1986.



Ég á þar við fund, sem við forsvarsmenn lækninga og deilda á Landspítalanum þáverandi voru boðaðir á af þáverandi fjármálaráðherra og heilbrigðismálaráðherra til að tilkynna, að nú yrði hætt við að fullgera svonefnda K-byggingu á Landspítalalóðinni. Forsaga þeirrar byggingar, sem aldrei var kláruð nema að hálfu leyti og aldrei náði að uppfylla þær fyrirætlanir, skipulagsbreytingar og væntingar, sem við hana voru bundnar, tengist langri og skrautlegri forsögu um endurbyggingu og hönnun Landspítalans, kennd við breskan „snilling“ og löngum nefnd „Weeks“- áætlunin. Allar þær bollaleggingar og umræður sem þar höfðu gerjast gegnum tíðina leiddu loks af sér nokkra, að vísu heldur alllauslega, sýn á verulega og skynsamlega endurbyggingu og útvíkkun spítalans. Þýðingarmikill þáttur í upphafi þess ferlis var einmitt K-byggingin, sem átti að rýma verulegan hluta þeirrar þjónustu- og aðgerðastarfsemi, sem þá var öll í molum og aðþrengdum plássum og er enn. Það má rifja upp, að þar var búið að áætla og nánast fullhanna nýjar skurðstofueiningar, svæfinga- og gjörgæsludeild, fullkomna röntgen- og myndgreiningardeild, auk bættrar aðstöðu fyrir ýmsa stoðstarfsemi tengda þessum höfuð-þjónustukjörnum. Í framhaldi var svo m.a. gert ráð fyrir nýbyggingum fyrir meinafræði, blóðbanka, auk nútímalegra fyrirkomulags sjúkradeilda, bæði með breytingum og nýbyggingu.

Auðvitað sáu menn, að rými spítalalóðarinnar væri takmarkað, þó mátti auka byggingahlutfall talsvert. Ég fer ekkert í felur með það, að mér persónulega hugnaðist betur að byggður yrði nýr háskólaspítali frá grunni, og reyndi af veikum mætti að hafa áhrif á að lóð Borgarspítalans yrði þar fyrir valinu auk sameiningar spítalanna. Ég held, að skammsýni og hrepparígur hafi valdið einhverju um, að ekki var hlustað af alvöru á þær raddir; m.a. þótti mér borgaryfirvöld sýna málinu sérlega lítinn skilning. Reyndar má ég nefna aðra hugmynd, sem ég fleytti við spítalayfirvöld og heilbrigðisráðherra einhvern tíma, en hún var að kaupa allan reitinn milli Eiríksgötu og Egilsgötu til niðurrifs og uppbyggingar myndarlegs háskólasjúkrahúss. Ég er enn þeirrar skoðunar að það hefði verið lausn, mun hugnanlegri en sú staðsetning sem nú er á teikniborðinu. Enda þótt hugmyndin hafi þótt stórkarlaleg og óframkvæmanleg á sínum tíma, er hún í fullu samræmi við þær skipulagsbyltingar sem nú eru í gangi og í vændum, og þætti ekki frágangssök í framkvæmdaumhverfi okkar í dag.

Minnugur örlaga K-byggingaráætlananna og hafandi í huga loðin ummæli fjármálaráherra í gær og nokkuð óljós orð heilbrigðismálaráðherra í þessum efnum, er ég ekki mjög bjartsýnn á framhaldið, en verði framhald, þá ætti að huga að annarri staðsetningu; annaðhvort „Eiríksgötureitinn“ eða Vífilsstaðatúnið!