Rannsóknatæki

Innkaupaverkefni vegna rannsóknatækja í fullum gangi

Undirbúningsvinna er hafin vegna kaupa á rannsóknatækjum í rannsóknahúsið. Fyrsta stóra innkaupaverkefnið snýr að sjálfvirkum frystigeymslum. Í frystigeymslurýmum Landspítala er að finna lífsýni, örverustofna og dýrasýni og eru flest sýnin geymd við ákveðið hitastig í frystum sem staðsettir eru á ýmsum stöðum. Í nýju rannsóknahúsi verður sýnunum komið fyrir í sjálfvirkum frystigeymslum sem sérhannaðar eru fyrir geymslu sýna af þessu tagi.

Í rannsóknahúsinu verða tvær tölvustýrðar, sjálfvirkar frystigeymslur, önnur fyrir -20 °C og hin fyrir -80 °C hitastig. Í þeim verður hægt að koma fyrir allt að þremur milljónum sýnaglasa. Geymslurnar munu hýsa núverandi geymslusýni og anna framtíðargeymsluþörf Landspítala. Frystigeymslurnar eru hannaðar til að halda jöfnu hitastigi sem á að tryggja heilleika sýnanna til framtíðar.

Sjálfvirknin felst í því að í geymslunum eru róbótar sem bæði flytja sýnin inn í frystigeymsluna og sækja sýni til rannsókna eftir þörfum. Það einfaldar mikið slíka vinnu frá því sem nú er og sparar jafnframt mikinn tíma og pláss. Fyrirhuguð er rafræn auðkenning allra sýnaglasa og mun tölvukerfi geymslanna halda utan um staðsetningu þeirra sem tryggir yfirlit og rekjanleika. Þá verður tölvukerfi frystigeymslanna samþætt við rannsóknarstofukerfi Landspítala.

„Þetta er mjög spennandi verkefni sem unnið er í samvinnu við ráðgjafa okkar Nosyko og teymi frá Landspítalanum,“ segir Ólafur Halldórsson verkefnastjóri tækja og búnaðar á tækni- og þróunarsviði Nýs Landspítala.