Gaskerfi

Kynning á lyfjaloftskerfi á Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi

Nýverið gafst fulltrúum Nýs Landspítala kostur á að skoða lyfjaloftskerfi á Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi. Skoðuð voru lyfjaloftskerfi sjúkrahússins og gaskerfi rannsóknahússins og sóttir kynningarfundir með hönnuðum kerfanna og aðilum sem komu að framkvæmdinni. Rekstraraðili Karolinska fór með fulltrúa NLSH um húsnæðið og sýndi alla þætti í kerfunum, birgðatanka, miðlægar gasmiðstöðvar, loftpressumiðstöðvar fyrir öndunarloft, þrýstivaktir deilda, afgaskerfi frá svæfingarvélum, reykútsogskerfi af skurðstofum, eyðingarkerfi fyrir glaðloft og fleiri þætti.

Þá var skoðuð sérstaklega blöndunareining fyrir “Synthetical Air” en þar er hægt að blanda saman köfnunarefni og súrefni af fljótandi birgðatönkum til framleiðslu á öndunarlofti sem sett er inn á kerfið ef loka þarf fyrir loftpressumiðstöðvar vegna mengunar í andrúmslofti.

Í framkvæmdum við meðferðarkjarnann er gert ráð fyrir möguleika á að setja upp sambærilegt kerfi og er á Karolinska og dæmi eru um að sjúkrahús í nágrannalöndunum hafi farið sömu leið.