
Miklabraut í stokk þegar nýr Landspítali verður tilbúinn
Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkurborgar hefur samþykkt val á tillögum í skipulagsvinnu varðandi bæði Miklubrautarstokk og Sæbrautarstokk, en á báðum stöðum er stefnt að því að leiða bílaumferð ofan í jörð á næstu árum. Framkvæmdirnar eru báðar hluti af samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.
Er haft eftir Degi B. Eggertssyni borgarstjóra í Kjarnanum 3.febrúar að stefnt sé að því að Miklabraut verði komin í stokk samhliða því sem nýr Landspítali verði tilbúinn.
Gert er ráð fyrir bílastæðahúsi á austurenda lóðar Landspítalans, undir kjarnastöð Borgarlínu og að hægt verði að aka beint úr stokknum inn í bílastæðahúsið og út aftur.
Hugmyndin er að skapa hágæða byggð sem tengir saman aðliggjandi hverfi og skapar sameiginlegan kjarna fyrir þau. Ný byggð er saumuð inn í núverandi hverfi og byggð við Landspítala, Norðurmýri, Hlíðarenda og Skógarhlíð.
Þessi nýja byggð býður upp á þjónustu sem bæði nýir og núverandi íbúar á svæðinu munu njóta góðs af.