folk ad labba i att ad spitalanum

Nýr Landspítali - Jákvæð umferðarspá

Betri og skilvirkari sjúkrahúsþjónusta í þágu sjúklinga er helsta markmiðið með fyrirhugaðri stækkun Landspítala. Við framkvæmd sem þessa er þó ávallt í mörg horn að líta. Eitt þeirra atriða sem nokkuð hefur verið rætt í tengslum við stærri Landspítala eru umferðarmál. Mikilvægt er að huga að þessum þætti og í skipulagsvinnu hafa verið framkvæmdar kannanir og mælingar til að leggja mat á hlutina. Niðurstaðan er sú að umferð á götum í nálægð spítalans eykst ekki verulega við sameiningu starfseininga spítalans við Hringbraut.

Þessi niðurstaða er afrakstur ítarlegra ferðavenjukannanna meðal starfsfólk Landspítala sem og umferðarmælinga. Út frá gögnum er áætlað að tilfærsla starfsstöðva á Hringbraut muni auka umferð á nálægum götum um 1-4% á sólarhring, eftir því hvaða götur um ræðir. Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar hefur sýnt fram á að aukinn umferðartoppur sem tengist spítalanum að morgni á Miklubraut fellur utan megin álagstopps venjubundinnar umferðar og mun ekki valda meira umferðarálagi en nú er, þegar mest lætur.

Stór hluti mættur til vinnu klukkan átta
Það er álit ráðgjafa og Reykjavíkurborgar að fyrsti áfangi uppbyggingar á spítalalóðinni kalli ekki á víðtækar ráðstafanir í gatnakerfinu. Mikilvægt er að hafa í huga að þeir starfsmenn sem munu vinna á sameinuðum spítala á Hringbraut dreifast á allan sólarhringinn allt árið um kring. Af þessum starfsmönnum eru um 67% mættir til vinnu fyrir klukkan átta að morgni sem er fyrr en almennt gerist á vinnustöðum borgarinnar.

Ítarlegar ferðavenjukannanir voru gerðar á meðal starfsmanna Landspítala árin 2008 og 2011. Þeim hluta starfsmanna sem kom á eigin bíl til vinnu fækkaði á milli kannana um 12%. Samkvæmt könnununum finnst 87% starfsfólksins auðvelt að komast til og frá vinnu og um 60% starfsmanna geta hugsað sér að nota annan samgöngumáta en einkabílinn. Þetta sýnir að vilji er hjá starfsfólki til að breyta samgöngumynstri sínu. Svipaðar breytingar má merkja hjá höfuðborgarbúum á síðustu árum. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg hefur umferð dregist saman um 3% á milli áranna 2010 og 2011.

Bæði Landspítali og Háskóli Íslands hafa lagt áherslu á að gera samgöngustefnur sem ganga út á það að draga úr notkun einkabíls hjá starfsmönnum og nemendum. Þetta samræmist stefnu Reykjavíkurborgar um vistvænar samgöngur. Í ferðavenjukönnun sjúklinga og aðstandenda sem framkvæmd var árið 2001, kom fram að meginhluti kemur á bíl.

Velja sér búsetu nálægt vinnu
Þegar búseta starfsmanna Landspítala var skoðuð kom í ljós að hærra hlutfall starfsmanna býr í nágrenni spítalans en íbúaþéttleiki segir til um. Af þessu má merkja að starfsmenn hafa valið sér búsetu nálægt vinnustað sínum. Uppbygging Landspítala við Hringbraut fellur þannig vel að breyttum og nútímalegum hugmyndum um fjarlægð milli vinnu og heimilis.

Í skipulagstillögunum er gert ráð fyrir bílastæðum á lóð Landspítala, hvorutveggja á opnum svæðum en einnig í bílastæðahúsum. Það er metnaður verkefnisins að tryggja nauðsynlegan fjölda bílastæða, en jafnframt að hafa til hliðsjónar að ferðavenjur eru að breytast, almenningssamgöngur eru að aukast, og þjónusta þarf á sama hátt, gangandi og hjólandi.

Ofangreint sýnir að ekki er ástæða til að hafa áhyggjur af því að stækkun Landspítala valdi auknum umferðartöfum. Engin rök benda til þess að stækkunin valdi miklum breytingum á umferð á svæðinu og í nágrenni þess.