
Nýtt deiliskipulag auglýst
Reykjavíkurborg hefur auglýst tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir Landspítala við Hringbraut.
Tillagan tekur til skipulags framtíðaruppbyggingar fyrir Landspítala, Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, á stækkaðri lóð við Hringbraut, segir í auglýsingu borgarinnar.
„Samþjöppun þekkingar og vísindastofnana verður á svæðinu, þar sem sameinuð verður sú starfsemi sem fram að þessu hefur skipst upp milli Fossvogs, Hringbrautar og víðar. Á skipulagssvæðinu er ætlunin að byggja upp í nokkrum áföngum starfsemi Landspítala. Nýbyggingar munu rúma m.a. slysa- og bráðamóttöku, skurðstofur, gjörgæslu og vöknun, myndgreiningu, rannsóknarstofur, legudeildir og sjúkrahótel auk húsnæðis Heilbrigðisvísindasviðs Háskólans,“ segir á vef Reykjavíkurborgar. Samfara auglýsingu á nýju deiliskipulagi eru auglýstar nauðsynlegar breytingar á deiliskipulagi Hringbrautar.
Tillögurnar, ásamt umhverfisskýrslu, liggja frammi í þjónustuveri Reykjavíkurborgar að Borgartúni 12-14, 1. hæð, virka daga kl. 8:20 – 16:15, frá 10. júlí 2012 til og með 4. september 2012, að því er segir á vef Reykjavíkurborgar.
Á vef borgarinnar er að finna frekari gögn og upplýsingar vegna deiliskipulagsins, en frestur vegna ábendinga og athugasemda í tengslum við skipulagið rennur út 4. september.