Fólk í kringum nýja landspítalann

Nýtt deiliskipulag auglýst

Reykjavíkurborg hefur auglýst tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir Landspítala við Hringbraut.

Tillagan tekur til skipulags framtíðaruppbyggingar fyrir Landspítala, Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, á stækkaðri lóð við Hringbraut, segir í auglýsingu borgarinnar.

„Samþjöppun þekkingar og vísindastofnana verður á svæðinu, þar sem sameinuð verður sú starfsemi sem fram að þessu hefur skipst upp milli Fossvogs, Hringbrautar og víðar. Á skipulagssvæðinu er ætlunin að byggja upp í nokkrum áföngum starfsemi Landspítala. Nýbyggingar munu rúma m.a. slysa- og bráðamóttöku, skurðstofur, gjörgæslu og vöknun, myndgreiningu, rannsóknarstofur, legudeildir og sjúkrahótel auk húsnæðis Heilbrigðisvísindasviðs Háskólans,“ segir á vef Reykjavíkurborgar. Samfara auglýsingu á nýju deiliskipulagi eru auglýstar nauðsynlegar breytingar á deiliskipulagi Hringbrautar.

Tillögurnar, ásamt umhverfisskýrslu, liggja frammi í þjónustuveri Reykjavíkurborgar að Borgartúni 12-14, 1. hæð, virka daga kl. 8:20 – 16:15, frá 10. júlí 2012 til og með 4. september 2012, að því er segir á vef Reykjavíkurborgar.

Á vef borgarinnar er að finna frekari gögn og upplýsingar vegna deiliskipulagsins, en frestur vegna ábendinga og athugasemda í tengslum við skipulagið rennur út 4. september.