
Nýtt rannsóknarhús leysir 36 ára gamlan vanda
Sýklafræðideild Landspítala er langstærsta rannsóknastofan í sýklafræði hér á landi og tilvísanarannsóknastofa fyrir allt landið. Þar fara fram öflugar vísindarannsóknir og metnaðarfullt starf um fimmtíu ötulla starfsmanna.
Deildin býr hins vegar við bágan húsakost sem hefur í för með sér ófullnægjandi aðstæður til rannsókna og ýmislegt óhagræði. Sýklafræðideildin er rekin í húsnæði á tveimur stöðum í borginni, við Barónsstíg og í Ármúla. Fyrrnefnda húsið var tekið í notkun árið 1976. Þá var leystur bráður húsnæðisvandi með því að reisa á lóð Landspítalans ódýrt stálgrindarhús. Ætlunin var að nota þetta bráðabirgðahúsnæði ekki lengur en í 10 ár. Nú eru árin orðin 36 og enn er verið að nota húsnæðið. Þrátt fyrir ítrekaðar viðgerðir er það langt í frá fullnægjandi fyrir starfsemi deildarinnar. Húsið heldur illa hita, sem er bagalegt ekki eingöngu vegna óþæginda sem það veldur starfsfólki, heldur líka vegna dýrs og viðkvæms tækjabúnaðar sem í húsinu er. Þegar kalt er í veðri á vetrum getur þurft að nota hitablásara til þess að tækin geti starfað rétt. Einangrun hússins er léleg, þ.e. óþétt og reglulega verða lekar. Dæmi eru um að á vetrum snjói inn á lagnir með þeim afleiðingum að rafmagn slær út. Á sumrin verður gjarnan mjög heitt í húsinu og þá gegna viftur sama hlutverki og hitablásarar gera á vetrum.
Iðnaðarmenn eru reglulegir gestir í húsinu til að sinna þar nauðsynlegum viðgerðum, lagfæringum og endurbótum. Kostnaður vegna þessa er umtalsverður og ekki gott að þurfa að nýta fjármuni í að halda gangandi svo lélegu húsnæði.
En Sýklafræðideildin er ekki aðeins rekin í 36 ára gömlu bráðabirgðahúsnæði við Barónsstíg. Fyrir rúmum tuttugu árum þegar fyrir lá að stækka yrði húsakost deildarinnar voru fest kaup á gömlu verslunarhúsnæði í Ármúla. Það hús fullnægir ekki kröfum sem gera þarf til rannsóknarhúsnæðis af þessu tagi. Sem dæmi má nefna að víða er leki í húsinu og má þakka fyrir að ekki hafa orðið skemmdir á dýrum útbúnaði deildarinnar vegna þessa. Ein hæð í húsinu er nánast ónothæf, svo illa er hún farin af völdum leka.
Hér hefur verið rakinn bágur húsakostur deildarinnar við Barónsstíg og í Ármúla. Líka má nefna það óhagræði í rekstri sem felst í að hafa deildina á tveimur stöðum. Mikið er um flutninga á sýnum á milli staða og sömuleiðis ferðir starfsmanna. Þá nýtast ekki alltaf lausar stundir starfsfólks sem skyldi vegna þess að ekki er hægt að vinna öll verk á einum stað. Í vissum tilfellum þarf tvöfaldan tækjakost og tvöfalt birgðahald þar sem einfalt myndi annars duga.
Ljóst er að fyrirhuguð nýbygging Landspítala við Hringbraut og sameining Sýklafræðideildarinnar á einn stað í nýju rannsóknarhúsi spítalans mun hafa í för með sér umtalsverðan sparnað á rekstrarfé. En það er líka mikils um vert að starfsfólk deildarinnar horfir fram á stórbætta aðstöðu til að það geti áfram sinnt brýnum rannsóknum á mikilvægu rannsóknasviði.
Starfsfólkið hefur sýnt mikla þolinmæði árum saman gagnvart ófullnægjandi vinnuaðstöðu. Það unir þessum aðstæðum vitandi að framkvæmdir við stækkun Landspítala við Hringbraut standa fyrir dyrum.