Mynd af þyrlu

Tveir lendingastaðir þyrlu tryggðir til framtíðar vegna Landspítala

Stýrihópur um verkefni Nýs Landspítala og önnur sérhæfð sjúkrahús, vill koma á framfæri upplýsingum í tengslum við lendingarstað björgunarþyrlna vegna starfsemi Landspítala.

Við hönnun og undirbúning uppbyggingar Landspítala við Hringbraut er gert ráð fyrir þeim möguleika að koma fyrir þyrlupalli ofan á nýju rannsóknahúsi spítalans. Er það gert bæði m.t.t. deiliskipulags og burðargetu hússins. Hönnun hússins hefur miðað við tvær mismunandi staðsetningar þyrlupalls á húsinu. Beint aðgengi yrði tryggt frá rannsóknahúsinu yfir í bráðaþjónustu meðferðarkjarna. Gert er ráð fyrir undirbúningskostnaði vegna þyrlupalls í fjármálaáætlun fyrsta áfanga Hringbrautar­verkefnisins.

Mikilvægt er að fram komi að þyrlupallar ofan á húsbyggingum heimila sjónflug eingöngu og hafa ekki möguleika á blindflugi. Því er nauðsynlegt, þó svo að þyrlupallur verði á Landspítala, að þyrlur geti áfram lent með sjúklinga í Nauthólsvík, líkt og verið hefur þegar aðstæður krefjast blindflugs.

Með undirritun viljayfirlýsingar milli stýrihóps, ráðuneyta, Landspítala, Reykjavíkurborgar og Landhelgisgæslu er verið að tryggja til framtíðar að þyrlur í sjúkraflugi geti lent á starfssvæði Landhelgisgæslunnar í Nauthólsvík þegar þörf krefur. Þar með verða tryggðir möguleikar á tveimur lendingarstöðum fyrir þyrlur. Annar á rannsóknahúsinu við Hringbraut með beinu aðgengi yfir á meðferðarkjarnann, hinn fyrir blindflug í aðstöðu Landhelgisgæslunnar í Nauthólsvík þar sem er jafnframt góð lendingaraðstaða fyrir þyrlur af stærstu gerð.

Við núverandi aðstæður lenda þyrlur í sjúkraflugi ýmist við Landspítala í Fossvogi eða í Nauthólsvík. Þær þurfa alltaf að lenda í Nauthólsvík við blindflugsaðstæður en einnig er lent þar ef sjúklingur þarf bráðaþjónustu sem einungis er veitt á Landspítala við Hringbraut. Með nýjum Landspítala verður bráðaþjónustan aftur á móti öll á einum stað. Af þyrlulendingum með sjúklinga það sem af er þessu ári hefur rúmlega helmingur lendinga verið í Fossvogi og tæplega helmingur lendinga verið í Nauthólsvík. Rétt er að taka fram að lögregla getur tryggt forgangsakstur sjúkrabifreiða úr Nauthólsvík á Landspítala við Hringbraut, enda er í öllum tilvikum fyrirvari á lendingum sjúkraflugs.