
Uppsteypa meðferðarkjarna gengur vel
Uppsteypuverkefnið á nýjum meðferðarkjarna er að ganga vel, en aðalverktaki uppsteypu verksins er Eykt hf.
“Helstu verkþættir sem nú eru í gangi við uppsteypuna eru áframhaldandi vinna við mótauppslátt, járnabendingu, jarðskaut, fyllingar, lagnir í grunni og uppsetningu stálvirkis. Vinna við neðri kjallara er að klárast og vinna við botnplötur í efri kjallara er í fullum gangi.
Vinna við frágang kjallaraveggja, fyllingar að þeim sem og fyllingar inn í rými er í fullum gangi. Vinna við uppsteypu veggja og súlna efri kjallara er u.þ.b. hálfnuð. Eins er vinna við fyrstu súlur og ramma á 1.hæð hafin og mannvirkið þar með farið að teygja sig upp úr grunninum og orðið vel sýnilegt. Vinna við eftirspenntar plötur er hafin og búið að spenna upp fyrstu plöturnar og hefur sú vinna gengið mjög vel. Vinna við stálvirki er hafin og búið að setja upp fyrstu súlur og bita. Vinna við tengiganga fyrir norðan meðferðarkjarna er í fullum gangi.
Vinna við uppsteypu tengiganga milli meðferðarkjarna og rannsóknarhúss er að hefjast,” segir Eysteinn Einarsson staðarverkfræðingur hjá NLSH.