folk ad labba i att ad spitalanum

Úrræðaleysi í hjúkrun á Landspítala

Ég undirrituð get því miður ekki lengur orða bundist vegna úrræðaleysis á Landspítala, í Fossvogi sem og á fleiri stöðum. Ég á ástvin, stjúpföður, sem er með Parkinson og hefur verið mjög veikur og hefur verið á sjúkrahúsi síðan 16. desember 2005. Þannig að manneklan hefur ekki farið framhjá mér fremur en öðrum aðstandendum. Aðstaðan, umönnun, og fleira er til háborinnar skammar og engum bjóðandi, hvorki börnum né eldra fólkinu, sem allt sitt líf hefur unnið hörðun höndum, verður veikt og fær engan veginn þá ummönun og þjónustu sem allir eiga rétt á í þessu svokallaða velferðarþjóðfélagi!

Það er mjög erfitt að horfa upp á ástvini sína, sem geta oft ekki hjálpað sér sjálfir og þurfa mjög mikla hjálp við alla hluti, en vegna mikillar manneklu er öll umönnun og þjónusta í algjöru lágmarki, sem og samskipti milli lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúklinga og aðstandenda. Þar af leiðandi getur starfsfólið engan veginn fylgst með öllu veika fólkinu, hvað þá punktað niður upplýsingar eins og á að gera. Einnig er virkilega erfitt fyrir aðstandendur að ná sambandi við læknana og það er óviðunandi.

Mér finnst, að stjórn LSH og ráðamenn eigi að laga þetta ástand núna strax. Ég vil taka fram að það er ekki við starfsfólkið að sakast, starfsfólkið gerir sitt besta en álagið á því er algjörlega óviðunandi. Við Íslendigar eigum mjög gott fagfólk, sem vill vinna þessi mikilvægu umönnunarstörf og vill hugsa vel um okkar ástvini sem og aðra. Til að svo verði er það algjört lágmark að starfsmennirnir fái mannsæmandi laun fyrir þessi mikilvægu störf, óháð stéttarfélögum. Þá væri hægt að manna þau stöðugildi sem nauðsynlegt er. Strax. Fyrr kemst ekki ró og friður á LSH. Ástandið er ekki boðlegt eins og það er og hefur verið allt of lengi. Þakka ég guði fyrir að þurfa ekki á sjúkrahús í þessari ringulreið. Og ofan á allt sem fyrir er, eru sumarfríin að byrja, svo að ástandið versnar og versnar, nema ráðamenn leysi vandann nú þegar. Svona ástand er engan veginn boðlegt.